>  Um BÍN

Um BÍN

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN) er gagnasafn um beygingakerfið í íslensku nútímamáli. Í safninu eru nú ríflega 270 þúsund beygingardæmi sem eru aðgengileg á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en tölvutæk gögn úr safninu eru hér með öllum opin án endurgjalds.

Orðaforðinn í BÍN er úr nútímamáli, mestmegnis úr almennu máli. BÍN er lýsandi fremur en leiðbeinandi og þar er ýmislegt að finna sem ekki er í samræmi við gildandi stafsetningarreglur enda var upprunalega takmarkið að setja fram efni sem nota mætti til málgreingar í tungutækniverkefnum. Vegna þessa gegnir BÍN ekki hlutverki stafsetningarorðabókar.

BÍN og Já

Samstarf Já og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum má rekja til leitarvélarinnar Emblu sem Spurl ehf. gerði fyrir Morgunblaðið. Embla var fyrsta leitarvélin sem kunni íslensku og gat þess vegna leitað að öllum beygingarmyndum orðs.

Nú hefur leitarvélin Embla verið lögð af en leitarvél Já á ættir að rekja til hennar. Spurl er nú hluti af Já og Orðabók Háskólans er hluti af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en samstarfið heldur áfram.

Fólkið

Kristín Bjarnadóttir er ritstjóri BÍN og upphafsmaður verksins. Hún er starfsmaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Fyrir hönd Já og þar áður Spurl annaðist Hjálmar Gíslason upprunalega forritun kerfisins sem heldur utan um gögn Beygingarlýsingarinnar, en umsjón þess kerfis er nú einkum í höndum Sveins Steinarssonar og Hlöðvers Þórs Árnasonar.

Auk þeirra sem hér hafa verið nefndir hafa ýmsir lagt hönd á plóginn við verkefnið. Þar á meðal eru bæði aðrir starfsmenn Árnastofnunnar og Já, velunnarar ýmsir sem og notendur Beygingarlýsingarinnar sem hafa komið með fjöldan allan af góðum ábendingum.