Úrslit


1. verðlaun

Orðavinda, Borgar Þorsteinsson

Orðavindan er stórskemmtilegur orðaleikur sem keyrir í vafra. Leikmanni er úthlutað sex bókstöfum sem geta myndað tiltekinn fjölda orðmynda. Markmið leiksins er að vinna sér inn sem flest stig með því að finna sem flestar þessara orðmynda áður en tíminn rennur út.

Orðavindan nýtir orðaforða Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls til að skera úr um innslegnar orðmyndir. Framsetning og virkni er til mikillar fyrirmyndar og margir munu örugglega skemmta sér tímunum saman við raða saman orðum og auka um leið orðaforða sinn og stafsetningarkunnáttu.

Prófanir hafa sýnt að bæði ungir sem aldnir hafa gaman af leiknum. Útfærslan er bæði vel gerð og frumleg og nafn leiksins er skemmtilegt nýyrði!

2. verðlaun

Orðaleit, Stefán Ingi Valdimarsson

Orðaleitin hjálpar notendum við leit að íslenskum orðum á vefsíðum. Með notkun Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls yfirvinnur Orðaleitin þær takmarkanir sem innbyggð textaleit í vöfrum er háð þegar kemur að íslenskum texta. Tæknileg útfærsla er snyrtileg og á margan hátt frumleg og tryggir að sem flestir geti nýtt sér tólið með lágmarksfyrirhöfn og án sérstakrar tæknilegrar kunnáttu.

3. verðlaun

Bætt gagnasnið fyrir opna útgáfu BÍN, Steinar Þór Sturlaugsson

Í þessu verkefni var SQLite-gagnagrunnssnið útbúið fyrir BÍN gögnin sem ætlað er að skila sér í auðveldu aðgengi að gögnunum úr sem flestum forritunarmálum og á sem flestum stýrikerfum. Jafnframt fylgdi verkefninu Python forritunarskil (API) sem hægt er að nota til að framkvæma ýmiss konar leit að orðmyndum og mörkum þeirra beint úr Python forritum. Þó svo að hér sé ekki endilega um mjög frumlegt verkefni að ræða þá er notagildi þess þeim mun meira. Hér hefur orðið til gagnagrunnur ásamt forritunarskilum sem hægt er að nota úr ýmiss konar forritunarmálum. Í stað þess að einbeita sér að því hvernig nálgast skal gögnin á skilvirkan máta þá geta forritarar einbeitt sér að því hvernig hægt er að nýta gögnin. Útfærslan á verkefninu er góð og prófanir á uppflettingu hafa sýnt að grunnurinn er skilvirkur. Verkefnislýsing er vel úr garði gerð.

Aukaverðlaun

Beygingarlýsing for dummies, Tihomir Rangelov

Í verkefninu Beygingarlýsing for dummies er gerð tilraun til nýrrar beygingarflokkunar fyrir íslensku þar sem byggt er á gögnum úr BÍN. Þar eru gögnin sjálf notuð til þess að setja fram beygingarflokka fyrir nafnorð í karlkyni og hvorugkyni. Flokkunin er algjörlega vélræn og þess vegna er hún "for dummies", þar sem ekki er gert ráð fyrir málfræðikunnáttu af neinu tagi hjá þeim sem síðan nýta gögnin, hvort sem það er fólk eða tölvur.

Efniviðurinn úr þessu verkefni og aðferðin sem hér er beitt geta orðið mikilvæg á tvo vegu. Í fyrsta lagi er hér mörkuð leið sem gefur mikla möguleika í máltækniverkefnum, t.d. sem inntak í stöðuferjöld. Í öðru lagi er hér gerð tilraun til úttektar á beygingakerfinu sem getur orðið mikilvægt framlag til málfræðirannsókna. Beygingarlýsing for dummies er tilraunaverkefni sem er verðskuldar að vinnu við það sé haldið áfram.

Aukaverðlaunin eru veitt fyrir áhugavert fræðilegt framlag og frumlegt verkefni.

Orðið.is - Samkeppni

Okkur er ánægja að tilkynna að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur opnað aðgang að gögnum úr Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN). Aðgangurinn er veittur með atbeina , sem stutt hefur stofnunina með veglegum fjárstyrk í þessu skyni. Með þessu framtaki er tryggt að allir hafi aðgang að þessum mikilvægu gögnum og geti nýtt þau í leik og starfi.

Til að fylgja þessu framtaki eftir efndi Já til samkeppni um hugvitsamlega notkun á gögnunum.

Verðlaun

Vegleg verðlaun verða veitt fyrir fyrstu 3 sætin í keppninni.

1. verðlaun: 300.000 kr
2. verðlaun: 100.000 kr
3. verðlaun: 50.000 kr

Þar að auki verður möguleiki á sérstökum aukaverðlaunum.

Dómnefnd